141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessu og þeim ásökunum sem við hv. stjórnarandstöðuþingmenn höfum hér uppi gegn þeim ráðherrum sem höfðu með vinnslu málsins að gera, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, þegar við sökum þá um að það séu pólitísk fingraför á ákvörðuninni að færa vatnsaflskostina úr nýtingarflokki niður í biðflokk, þá er sagt að skoða þurfi hlutina betur og rannsaka hlutina betur.

Mig langar að velta nokkru upp við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson: Var í sjálfu sér eitthvað nýtt sem kom fram frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér varðandi t.d. virkjunarkostina í Holta- og Hvammi og Urriðafossi jafnvel líka? Var eitthvað nýtt sem kom fram sem hafði ekki verið fjallað um áður og var vitað um? Í skýringum með rammaáætlun er þetta rökstutt þannig að laxfiskastofninn í Þjórsá þurfi frekari rannsókna við, um afleiðingar og áhrif virkjananna á laxfiskastofninn í ánni. Ef ég vitna til þeirra funda sem atvinnuveganefnd hefur átt t.d. með Landsvirkjun og Veiðimálastofnun hefur komið fram að sennilega hafa hvergi á Íslandi verið eins víðtækar rannsóknir varðandi laxfiskastofn og í Þjórsá. Þær ná allt að 15–20 ár aftur í tímann og hafa verið af mjög miklum þunga sl. 10 ár. Ef mig misminnir ekki hefur komið fram (Forseti hringir.) að lengra verði í raun ekki gengið í þessum rannsóknum.