141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get staðfest það enda sitjum við báðir í atvinnuveganefnd og fjölluðum bæði um málið í vor og sátum svo sameiginlega fundi hér í haust með umhverfis- og samgöngunefnd. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni komu fram mjög skýrar og greinargóðar upplýsingar frá Veiðimálastofnun sem sýndu að í raun og veru væri ekki hægt að ganga lengra. Það væri auðvitað hægt að hafa stöðuga vöktun og rannsóknir, enda mundu þær halda áfram hvort eð er og ekkert athugavert við það.

Það sem mér fannst enn áhugaverðara var að þegar við fórum í ferð atvinnuveganefndar og hittum andstæðinga virkjunar, fulltrúa Sólar á Suðurlandi, sem líka eru í Veiðifélagi Þjórsár, Þjórsárfélagsins, þá komu þau sjónarmið fram að þeir aðilar höfðu orðið ekkert á móti virkjununum vegna þess að búið var að koma til móts við allflesta þætti athugasemda þeirra, en höfðu áhyggjur af því að ekki væri hægt að veiða nóg.

Staðreyndin er hins vegar sú að eftir að virkjanirnar voru settar í Þjórsá hefur laxastofninn margfaldast vegna þess að búsvæðin eru miklu betri í dag eftir virkjanirnar efri en var áður. Með laxastiganum við Búðafoss stækkaði búsvæðið gríðarlega mikið því þá komst laxinn ofar í ána. Landsvirkjun var með hugmyndir, sem komu fram í þessari ferð okkar í atvinnuveganefnd, um að setja seiðafleytu í Hvammsvirkjun sambærilega við þá sem þeir hugðust upphaflega setja eingöngu við Urriðafoss. Þá kæmi þar góð reynsla á hvort það væri skynsamlegt, hvort það virkaði, sem væru þar af leiðandi hugsanlega nægilega góð mótvægisrök við Urriðafoss þegar að henni kæmi.

Þess vegna hef ég verið á þeirri skoðun að það hefði verið góður salómonsdómur, það hefði verið skynsamlegast að halda inni efri hluta af tveimur virkjununum, Holta- og Hvamms-, (Forseti hringir.) en setja Urriðafoss í bið og láta (Forseti hringir.) tímann hjálpa okkur við að skoða þetta með seiðafleyturnar.