141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rammaáætlun er mikilvægt mál og ég held að við séum öll sammála um að það er eitt stærsta málið á þinginu. Það sjá allir að afdrif rammaáætlunar munu hafa mikil áhrif á efnahagslífið á næstu árum. Þegar Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins og önnur samtök á vinnumarkaði gera kjarasamninga horfa menn auðvitað til efnahagsástandsins. Þegar staða kjarasamninga verður metin í byrjun nýs árs líta menn á horfurnar í efnahagslífinu. Rammaáætlun spilar þar sterklega inn í.

Það er auðvitað engin sérstök frétt fólgin í því í dag að Alþýðusambandið sé ósátt við þá stefnu sem ríkisstjórnin tekur í rammaáætlun vegna þess að talsmenn Alþýðusambandsins og fulltrúar þess hafa margoft komið slíkum sjónarmiðum á framfæri við Alþingi. Það hefur hins vegar greinilega verið markviss stefna meiri hlutans á þingi að hunsa sjónarmið Alþýðusambandsins og sjónarmið Samtaka atvinnulífsins í þessum málum, hann lokar einfaldlega eyrunum fyrir þeim sjónarmiðum og rökum sem koma úr þeirri átt. En Alþýðusambandið hefur valið daginn í dag til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri ásamt sjónarmiðum í ýmsum öðrum málum þar sem Alþýðusambandið telur að um svik sé að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar á fyrirheitum sem gefin hafi verið um marga þætti, bæði beinar aðgerðir af hálfu ríkisins og eins um almennar aðgerðir á sviði efnahagsmála.

Það er auðvitað alvarleg staða en það er ekki frétt í dag að Alþýðusambandið hafi þetta viðhorf til (Forseti hringir.) rammaáætlunar. Hins vegar er ákveðin frétt fólgin í því hversu mikið deilan (Forseti hringir.) hefur skrúfast upp, ef við getum orðað það svo. Það er erfitt að sjá hvernig fulltrúar (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins ætla að ná saman aftur eftir þau stóru orð sem fallið hafa.