141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það hefur komið í ljós eftir því sem þetta mál er rætt meira og ítarlegar á Alþingi að fleiri og fleiri eru að hverfa frá stuðningi við ríkisstjórnina eins og kom fram í máli þingmannsins og hann rakti með Alþýðusamband Íslands, sem þurfti að auglýsa og vekja athygli á málinu í blöðum í morgun, í Fréttablaðinu.

Það sem er athyglisvert er það sem gerðist nú undir kvöld þegar hv. þm. Árni Páll Árnason birtir færslu á fésbókarsíðu sinni og þingmaðurinn minntist á. Hv. þm. Árni Páll Árnason fullyrðir að stjórnvöld hafi ekki farið að neinu leyti eftir efnahagsáætlun sem hann hafi sem ráðherra unnið dyggilega að. Þetta eru miklar yfirlýsingar frá fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar verð ég að segja, virðulegi forseti, en þetta er kannski hluti af formannsbaráttu í Samfylkingunni, ég skal ekki segja.

Það sem er eftirtektarverðast í ummælum hv. þingmanns á fésbókarsíðu sinni eru þessi orð, með leyfi forseta:

„Afleiðingin: Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Virðulegi forseti. Þetta eru stór orð frá stjórnarþingmanni, hann ákallar í raun þjóð sína og spyr hvort við eigum ekki betra skilið en þá ríkisstjórn sem hann hefur átt sæti í. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Hvað finnst honum um þessi ummæli? Er hv. þm. Árni Páll Árnason þar með að hverfa frá stuðningi sínum við ríkisstjórnina? (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn kannski að málið sé komið í svo mikið óefni að ekki sé lengur meiri hluti fyrir því á þingi?