141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér áfram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í dag birtist á Smugunni eftirfarandi hugleiðing frá Hjörleifi Guttormssyni, fyrrverandi hv. þingmanni og fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hann spyr: Hvenær ákvað VG að stefna að olíuvinnslu á Dreka? Hann segir að nýverið hafi verið veitt leyfi til rannsókna á svæðinu en ekki nóg með það heldur hafi vinnsluleyfi fylgt í kjölfarið. Hann segir að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafi fyrir sitt leyti fallist á veitingu leyfa sem feli í sér að stefnt verði að olíuvinnslu á íslensku hafsvæði.

Það er dálítið undarlegt, herra forseti, að á sama tíma og menn ætla hér að takmarka vinnslu á hreinni orku ætli þeir að fara að vinna jarðefnaorku eða olíu norður í ballarhafi. Hún mun væntanlega verða brennd, því að venjan er að olíu sem dælt er upp í dag sé brennt með einhverjum hætti og það veldur mengun jarðar. Ég hefði talið að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar, þeir sem eru hlynntir náttúrunni og hlynntir umhverfisvernd, ættu heldur að búa þannig um hnútana að við getum strax farið að framleiða hreina orku eftir því sem sátt næst um í þjóðfélaginu. En það er ekki gert heldur er farið út í olíuleit á sama tíma og allt málið tafið eins og við þekkjum.

Það að bregða út af rammaáætlun sem verkefnisstjórnin hafði unnið, það að taka virkjanir úr nýtingarflokki og setja í biðflokk hefur tafið allt málið. Þess vegna stöndum við hér og ræðum þetta, herra forseti. Þetta tefur málið og tefur það að við getum virkjað og að hér hefjist hagvöxtur. Þess vegna, herra forseti, segir ASÍ, sem fulltrúar stórra launaþegasamtaka, að þetta hafi ekki verið efnt í samningum þeirra við ríkisvaldið. Þeir líta þannig á að rammaáætlun sem sátt hafi náðst um og hefði getað leitt til þess að við gætum farið að virkja af krafti og fyrr heldur en núna þegar allt er í uppnámi og enginn veit hvað gerist. Meira að segja er hægt að álykta að þessi rammaáætlun gildi bara til næstu kosninga. Það er það sem mjög líklega mun gerast.

Ég hef heyrt sjónarmið þeirra sem vilja ekki virkja, ég hef hlustað á þau og að einhverju leyti fellst ég á þau. Þau felast í því að mannkynið eigi að hverfa frá neyslu yfirleitt. En það er svo merkilegt að hreina orkan á Íslandi hefur verið notuð til að búa til ál og ál er umhverfisvænn málmur. Hann er léttari en flestir aðrir málmar og getur verið sterkari í ákveðnum efnasamböndum og hann sparar orku, þannig að ál er umhverfisvænt, sérstaklega þegar það er framleitt með umhverfisvænum hætti og umhverfisvænu rafmagni. Ef menn ætla að hverfa frá þeirri stefnu að framleiða ál eða ætla að nota hreinu orkuna okkar til að geyma gögn eða reka gagnaver eða annað eru þeir í raun að segja að annaðhvort eigi mannkynið að hætta þessari neyslu eða framleiðslan eigi að fara fram annars staðar eða gögnin verði geymd annars staðar þar sem orkan er framleidd með brennslu jarðefna með óheyrilegri mengun fyrir andrúmsloftið og hitnun jarðar og þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Það eru því átök á milli þessara tveggja fylkinga, þeirra sem vilja virkja og þeirra sem ekki vilja virkja. Mér finnst að þeir sem vilja ekki virkja verði að minnsta kosti að hlusta á meiri hlutann og þeir hefðu átt að sætta sig við niðurstöðu þess faglega mats sem unnið hafði verið að í rammaáætlun í fjölda ára.