141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Í dag eru tímamót því að lögð var fram tillaga í norska þinginu sem verður til þess að Norðmenn fá heimild til leitar á Drekasvæðinu — en hv. þingmaður fór einmitt í ræðu sinni yfir olíuleitina og olíuvinnsluna ásamt virkjunarmálum hér á landi. Við eigum auðvitað að nota allar þær auðlindir sem við getum í sátt við náttúruna til að skapa samfélag sem allir búa sáttir í.

Þingmaðurinn nefndi í lok ræðu sinnar þá sem vilja alls ekki virkja. Það er dæmi um það sem gerst hefur í íslensku samfélagi undanfarin ár eða áratug, þ.e. að lítill minni hluti kúgar meiri hlutann til athafnaleysis. Þetta sér maður í mörgum málum og ég tel að það sé að gerast í þessu máli. Tillagan hefur átt sér mjög langan aðdraganda, 13 til 14 ár, hefur verið í mjög opnu og gegnsæju ferli og landsmenn hafa allir getað komið skoðunum sínum á framfæri inn í þetta plagg. En á lokametrunum kemst lítill minni hluti kjósenda Vinstri grænna, og hæstv. ráðherra þess flokks, með hendurnar í málið og breytir tillögunni eftir 13 ára sáttaferli. Það er ólíðandi, virðulegi forseti, að málið sé komið á þennan stað vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Mig langar að spyrja þingmanninn sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Birgi Ármannsson að áðan: Hvað telur hann um gang málsins hér í þinginu? Nú eru þingmenn farnir að láta af stuðningi við tillöguna, ég sé ekki betur en hv. þm. Árni Páll Árnason hafi gert það (Forseti hringir.) nú í kvöld. Telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að enn sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu?