141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð spurning og eftir því sem umræðunni vindur fram held ég að menn muni skilja hvað er að gerast. Það er nefnilega þannig að umræðan hefur gildi í sjálfu sér. Hér hefur mörgum atriðum verið varpað fram, menn hafa verið spurðir og hafa stundum svarað en ekki alltaf. Það er að koma í ljós að kannski er bara ekki meiri hluti fyrir þessari tillögu. Þá munu menn væntanlega sjá að sér og vonandi setjast andstæðar fylkingar niður og sameinast um þá niðurstöðu sem verkefnisstjórnin hafði komist að. Ég vona að það verði niðurstaðan, sérstaklega eftir að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tjáði mér að hún hefði helst áhyggjur af því í sambandi við biðvirkjanir að rannsóknir kynnu að valda náttúruspjöllum. Hægt er að komast hjá því með því að setja ákvæði um að þeir sem rannsaka virkjanir í biðflokki eigi að ganga þannig frá að skaðinn sé sem minnstur fyrir náttúruna. Það er alveg hægt ef menn vanda sig.

Ég held að eftir því sem umræðan þróast, og sérstaklega eftir innlegg ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, fallist menn hreinlega á sjónarmið þess stóra meiri hluta sem er á því að standa eigi faglega að þessu mati. Ég held að tiltölulega fáir séu algjörlega á móti virkjunum og tiltölulega fáir vilji virkja hverja sprænu og hvern hver. Það er hinn mikli fjöldi sem er þarna á milli (Forseti hringir.) sem vill fá áætlunina.