141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta svar. Já, málið er á skrýtnum stað. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki um mikla tímasóun að ræða, að halda mönnum frá öðrum dýrmætari og mikilvægari þingstörfum dag eftir dag og nótt eftir nótt til að ræða þessi mál þegar fyrirséð er að tillagan nýtur ekki meirihlutatrausts á Alþingi. Væri ekki betra að vinnustaðurinn liti þannig út að hægt væri að vera hér á daginn og setja lög og álykta hvað hægt væri að gera fyrir skuldug heimili eða varðandi atvinnuuppbyggingu? Þessi tillaga gengur út á að skrúfa atvinnulífið niður eins og þegar hefur komið fram.

Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin, sem telur sig hafa meiri hluta hér á þingi, kemur fram í þessu máli. Talað er um lygar og svikabrigsl og hnefinn er steyttur og ég veit ekki hvað. Sumir segja: Loksins er gamli góði Steingrímur J. Sigfússon mættur aftur, sem nú er hæstv. ráðherra. Hvaða augum lítur þingmaðurinn þingstörfin þegar málin eru komin í þennan hnút og þegar svo virðist jafnvel að ekki sé meiri hluti fyrir þingsályktunartillögunni? Hvers vegna getur ríkisstjórnin ekki komið fram með tillögu sem er samhljóða tillögum starfshópsins sem vann þetta plagg? Hvaða þrjóska er þetta? Hér er lítill minni hluti að kúga meiri hlutann.