141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Kannski hefur Orkustofnun komist að því hversu verðmætt það er að menn vinni hlutina í sátt, hversu miklu minni orka fer í að ná niðurstöðu þegar búið er að vinna málin faglega. Mér sýnist á öllu að það hafi verið gert í þessu tilviki. Tekið var tillit til ótrúlegra sjónarmiða, hluta sem ég hefði ekki látið mér detta í hug, sjónmengunar og annars slíks. Það væri fyrir löngu búið að samþykkja þetta ef menn hefðu unnið samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Þá hefðu einhverjir verið ósáttir, mjög ósáttir, þeir sem vildu ekkert virkja. Aðrir hefðu líka verið mjög ósáttir, þeir sem vildu virkja hverja sprænu. En meginhluti þjóðarinnar hefði verið sáttur og meginhluti þingmanna væntanlega líka, sumir þeirra eru kannski ekki alveg að vinna samkvæmt heilögustu sannfæringu. Við værum þegar byrjuð að virkja ef hlutirnir hefðu verið unnir á þann veg. Og þegar væri farið að gæta bjartsýni hjá félagsmönnum ASÍ og hagvöxtur væri hugsanlega kominn í gang.

Það eru þessi átakastjórnmál sem kosta svo óskaplega mikla orku og eyðileggja svo mikið. Það er svo mikið niðurrif fólgið í því að þurfa alltaf að keyra yfir annað fólk, þurfa alltaf að ráða og stjórna og tapa dómsmálum og ég veit ekki hvað. Það er svo mikið niðurrif fólgið í því og það er svo mikil neikvæðni. Ég vona að þessi umræða, sem er mjög góð og málefnaleg, verði til þess að menn fallist á endanum á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og fari leið sem meginhluti þjóðarinnar er sáttur við. Ég vona að við getum farið að virkja.