141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í fésbókarfærslu talar hv. þm. Árni Páll Árnason um afleiðingar þess að fylgja ekki þeirri efnahagsstefnu sem hann vann að. Hann segir að afleiðingin sé það mikla rifrildi sem nú á sér stað á milli Alþýðusambands Íslands og ráðherra í ríkisstjórninni.

Við sjáum þau átakastjórnmál sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vísar í endurspeglast í orðræðunni á milli ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins. Hv. þm. Arni Páll Árnason vísar til hennar og segir um leið að taka þurfi upp nýtt verklag.

Í framhaldi af þessu vil ég næst nefna álit Samorku sem eru samtök orkuveitufyrirtækja. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ofangreind tillaga til þingsályktunar víkur mjög mikið frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar, á einhverjum allt öðrum forsendum.“ — Áður var búið að ræða hvernig þetta var allt sett upp. — „Tillagan er því, að mati Samorku, enginn grundvöllur fyrir sátt um þennan málaflokk og þess vegna verða samtökin að lýsa miklum vonbrigðum með hana.“

Þarna er á ferð enn einn aðilinn, enn ein samtökin sem skipta miklu máli þegar við ræðum um sátt um friðun og verndun, samtök þessara fyrirtækja. Þessi ágætu samtök bundu að sjálfsögðu eins og aðrir vonir við að það tækist að leysa verkefnið í sátt og hefðu örugglega viljað fara aðra leið en þarna er gert — mögulega, ég ætla ekki að segja örugglega — með ákveðna kosti. Við hljótum að spyrja (Forseti hringir.) hvort þetta undirstriki ekki þau átök sem hv. þingmaður er hér að lýsa.