141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nærri viss um að þau hefðu viljað virkja eilítið meira en gert var ráð fyrir í niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, það hugsa ég. En þessi samtök voru tilbúin til að fallast á niðurstöðuna eins og flestallir aðrir, eins og ég var tilbúinn til og eins og margir virkjunarsinnar voru líka tilbúnir til, þeir sem voru ekki eins eindregnir og ætluðu sér ekki að misnota aðstöðu sína.

Þetta er mjög skaðlegt eins og allur ágreiningur er alltaf, bæði skaðlegur og neikvæður. Hann grefur um sig með neikvæðni og tefur framfarir og lausnir. Ef þetta hefði verið tekið óbreytt upp eins og verkefnisstjórnin lagði upp með og ef menn hefðu í sæmilegri sátt valið úr þær virkjanir sem áttu að vera í biðflokki, þær sem áttu að vera í nýtingarflokki og þær sem áttu að vera í verndarflokki — sem var hægt að lesa út úr faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar — værum við löngu búin að samþykkja þetta. Þá væri löngu búið að samþykkja rammaáætlun, þá væri löngu farið að virkja það sem menn telja að eigi að virkja og allir eru sammála um að virkja. Þá væri búið að gera ráðstafanir með virkjanirnar sem menn ætla virkilega að vernda, að þær yrðu ekki virkjaðar.

Miklu meiri gangur væri í efnahagslífinu, heimilin hefðu það betra, atvinna væri meiri. Það er þess vegna sem ASÍ kveður fast að orði, í auglýsingu sem birtist í dag: Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar – ekki efnt. Það er mjög óvenjulegt að svona stór fjöldasamtök setji slíkt fram. Þau segja hreinlega að ekki hafi verið staðið við það loforð að fara að tillögum sérfræðinganefndarinnar. Það er mikill skaði, það er mikið tjón. Það er tjón fyrir þjóðfélagið, það er tjón fyrir okkur öll.