141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að beina því til hæstv. forseta að kannski væri æskilegt að breyta dagskránni og rifja upp ummæli hæstv. atvinnuvegaráðherra fyrir um viku um að það yrði að fara að klára fjárlögin svo að hægt yrði að greiða út laun. Síðan er búið að afgreiða frumvarpið úr hv. fjárlaganefnd til 3. umr. og það kemst ekki á dagskrá. Það sjá allir í gegnum tvískinnung hæstv. atvinnuvegaráðherra þegar hann kom upp undir liðnum störf þingsins og var með aðdróttanir gagnvart stjórnarandstöðunni sem vildi ræða fjárlagafrumvarpið, sem var auðvitað full ástæða til.

Það er grafalvarlegt þegar málin eru komin í þann farveg að forseti ASÍ og forustumenn þeirra samtaka þurfi að gefa út þá yfirlýsingu sem var gefin út í dag. Þetta undirstrikar enn og aftur aðför hæstv. ríkisstjórn gagnvart öllu og öllum í atvinnulífinu. Það er alveg sama hvort það er sjávarútvegurinn, stóriðjan eða ferðaþjónustan sem var síðasta bitbeinið, ríkisstjórnin er í stríði við allt og alla. Af þessu hefur maður miklar áhyggjur. Það er mjög merkilegt að hæstv. ríkisstjórn telji sig ná árangri með þessum hætti. Núna blasir við almenningi í landinu enn eina ferðina hvernig stjórnarandstaðan hefur þurft að búa við aðdróttanir hæstv. ríkisstjórnar.

Ég sé að hæstv. umhverfisráðherra er í salnum og ég hefði viljað, af því að ég er búinn að spyrja margoft að því, fá útskýringar á því hvers vegna niðurröðunin er eins og hún er í þingsályktunartillögunni. Ég átta mig ekki á því, þ.e. af hverju er verið að taka vatnsaflsvirkjanirnar í nýtingarflokki og setja þær í biðflokk. Þegar maður skoðar röksemdafærsluna fyrir því er sagt að menn vilji fara sér hægt og gefa sér ákveðið svigrúm og varúðarsjónarmið liggi að baki. Ég geri ekki lítið úr því. Sérstaklega er þar átt við virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Ég skal nú bara tala um tvær efri virkjanirnar og sleppa Urriðafossi. En þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun ætlar að fara í samhliða þeim virkjunum og að þessar virkjanir eru lengst komnar í hönnun, það er mest vitað um þær, þær eru mest rannsakaðar og hægt að hefjast þar handa fyrst, eru þær færðar.

Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að ef sama röksemdafærsla gilti um virkjanir inni á háhitasvæðum ættu þær ekki að vera í nýtingarflokki og það er ótrúlegt að sjá að hæstv. ráðherra leggi þá flokkun til. Áhættan við þær kemur mjög skýrt fram í meirihlutaálitinu, þar er sagt að það sem gæti gerst við að virkja á háhitasvæðum væri í fyrsta lagi mengun á grunnvatni, í öðru lagi mengun andrúmslofts og í þriðja lagi jarðskjálftar. Þetta þrennt er tilgreint sem áhætta við að fara í virkjanir á háhitasvæðum. Samt leggur hæstv. umhverfisráðherra til að þær verði í nýtingarflokki. Síðan getum við auðvitað rifjað upp hvað hefur gerst með Hellisheiðarvirkjun.

Varúðarsjónarmiðið sem tekið er tillit til þegar vatnsaflsvirkjanirnar eru annars vegar í neðri hluta Þjórsár snertir laxastofninn. Við vitum það öll sem höfum kynnt okkur þetta eitthvað að hættan er mest í kringum Urriðafoss og við vitum af þeim mótvægisaðgerðum sem Landsvirkjun ætlar að fara í samhliða þessum virkjunum. Og þó að við settum Urriðafoss til hliðar og færum í hinar tvær efri er mjög sérkennilegt að þrátt fyrir þessar mótvægisaðgerðir skuli varúðarsjónarmiðin standa, en hæstv. ráðherra leggur samt til að farið verði í virkjanir á háhitasvæðunum.

Það er mjög sérkennilegt að þetta skuli vera svona og ekki hægt að segja að það sé samræmi þarna á milli. Ef þau varúðarsjónarmið sem uppi eru gagnvart vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá og að þess vegna eigi að sleppa þeim eru gild ætti hið sama að sjálfsögðu og enn frekar, a.m.k. að mínu mati, að gilda um virkjanir á háhitasvæðum. Það er hreint með ólíkindum að ekki skuli einu sinni fást svör þegar maður spyr trekk í trekk sömu spurninganna.