141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Já, það er ansi fátt um svör, það er ekki hægt að segja annað. Ég tek undir með þingmanninum að það er ekki nokkur leið að draga það upp úr ríkisstjórninni hvað liggur þarna að baki. Ég hef kallað eftir svörum og ég hef kallað eftir gögnum um það hvers vegna flokkuninni var breytt og hvað liggur hreinlega að baki en hef ekki fengið svör.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra situr hér í salnum og fyrir það ber kannski að þakka því að við þingmenn höfum oft kallað eftir því að ráðherrarnir séu hér í salnum og eigi eitthvert smásamtal við okkur í þinginu. En fátt er um svör og það er eiginlega varla nokkur einasta leið að fá svör við spurningum okkar.

Það sem er að gerast í dag, að fjöldahreyfing á Íslandi, sjálfur verkalýðurinn, verkalýðshreyfingin, sé farin að kalla eftir málþófi á Alþingi er stórmerkilegt. Það er jafnmerkilegt liggur við og að síldin sé að ganga á land og það eru víst alveg óskapleg stjörnuhröp úti núna, þetta er sérstakur dagur að þessu leyti.

Hvað finnst þingmanninum um að sjálf verkalýðshreyfingin sé farin að biðja um málþóf í Alþingishúsinu? Þessi auglýsing sem ASÍ birti í morgun er ekkert annað en ákall um málþóf og ákall um að við reynum að knýja fram einhverjar breytingar í gegn í átt til upphaflega plaggsins. Það er beinlínis verið að biðja okkur þingmenn, löggjafann sjálfan, að taka valdið af ríkisstjórninni í þessu máli. Svo höfum við rætt um að fjárlögin og annað mæta hér mikilli mótstöðu, en það var talað um málþóf og nefnt, eins og þingmaðurinn fór yfir, að ekki yrði hægt að borga út laun. En nú liggur ekkert lengur á að ræða fjárlögin heldur erum við föst í þinginu, með tillögu (Forseti hringir.) sem nýtur jafnvel ekki stuðnings meiri hluta þingmanna og ræðum hana fram á rauða nótt. (Forseti hringir.) En hvað finnst þingmanninum um viðbrögð ASÍ?