141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ákall forustumanna verkalýðshreyfingarinnar grafalvarlegt og það er auðvitað ekki sett fram nema að vel ígrunduðu máli. Yfirskrift auglýsingarinnar var: Orð skulu standa. Ákallið í skilaboðum frá verkalýðshreyfingunni var mjög skýrt, þar voru talin upp ákveðin atriði og þar á meðal þetta mál sem við erum að ræða hér, rammaáætlun og að röðunin mundi miða við það sem verkefnisstjórnin lagði til. Í raun og veru er óskiljanlegt af hverju það mál sem við mæltum fyrir, þingflokkur sjálfstæðismanna, um að skipa aftur verkefnisstjórn til að útfæra þessar tillögur og ná þar með sátt um rammaáætlun, er ekki rætt.

Auðvitað kallar ASÍ ekki eftir þessu nema vegna stöðu félagsmanna sinna. Þannig er það. Menn horfa á það sem fram undan er eins og kom til að mynda fram hjá forustumanni ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni. Nú fer af stað skriðan sem við könnumst við frá fyrri árum, menn fara að hækka laun og þá hækkar verðbólgan og svo bítur þetta í skottið á sjálfu sér og endar allt saman í sömu vitleysunni.

Mín skoðun er alveg klár og ég hef oft farið yfir hana í ræðum. Vegna skuldastöðu ríkissjóðs tel ég mjög mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma og forustumenn atvinnulífsins gangi til samninga og geri svokallaða þjóðarsáttarsamninga eins og gerðir voru hér fyrir löngu. Öðruvísi náum við ekki tökum á þessu, það er mín skoðun. Við verðum að standa saman. Þetta er mun stærra verkefni en svo að það sé bara fyrir stjórnvöld, sama hver þau eru. Það er gríðarlega mikilvægt að ná samstöðu með forustumönnum atvinnulífsins, hvort sem það er verkalýðshreyfingin eða Samtök atvinnulífsins, til að ná tökum á skuldastöðu ríkissjóðs.