141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísar hér í umsögn frá Suðurorku, sem ég hafði reyndar ekki lesið nægilega vel þannig að ég geti farið yfir þau atriði sem hv. þingmaður benti á.

Þegar menn fara í verkefni sem búið er að vinna að í langan tíma vitum við alveg að ekki verða allir sáttir. Við vitum að þeir sem vilja virkja mest eru ekki sáttir við það sem fer í biðflokk og síðan í verndarflokk, og svo öfugt, að þeir sem vilja vernda eru heldur ekki sáttir við niðurstöðuna en á öðrum forsendum.

Ég held hins vegar að við séum öll sammála um að við viljum fara varlega og gerum okkur grein fyrir virði náttúrunnar, hversu mikils virði það er að hafa hana sem heillegasta og sem besta. Ég hræðist það mjög mikið og margir hafa bent á það nú þegar málið er komið í þennan farveg að þetta er bara rammaáætlun núverandi hæstv. ríkisstjórnar, það er þannig í mínum huga. Næsta ríkisstjórn telur sig ekkert bundna af henni og verður strax farið í að breyta áætluninni, þannig að niðurstaðan er ónýt eftir allt erfiðið við að reyna að ná samstöðu um hlutina. Það er því gríðarlega alvarlegt.

Síðan hef ég ekki fengið nein svör við því sem ég kallaði eftir við hæstv. ráðherra sem hlustaði á ræður mínar í dag. Ég spurði spurninga sem ekki er svarað. Hvers vegna það er ekki gert veit ég ekki, en það er mjög furðuleg staða sem við erum í núna. Ég held í raun og veru að meiri hluti þingmanna, sem eru frekar hófsamir, verði undir í þessu máli í hvora áttina sem farið er.