141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í svari sínu sem ég ætlaði að spyrja um í seinna andsvari, þ.e. að hér hafa mjög margir þingmenn stjórnarandstöðunnar lýst því yfir að þetta sé augljóslega rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar, og höfum við hlotið nokkrar skammir fyrir það frá einstaka þingmönnum stjórnarliðsins sem komið hafa upp og talað um hótunarmenn og annað.

Það eru nú ekki bara þingmenn sem eru þessarar skoðunar því að í greinargerð og umsögn Samorku frá 30. apríl 2012 segir, með leyfi forseta:

„Náist ekki breið samstaða þvert á stjórnmálaflokka um rammaáætlunina þá er því miður líklegt að niðurstaðan verði eingöngu stefna núverandi stjórnvalda í verndun og nýtingu.“

Það var því greinilegt að einhver hefur séð að þetta mundi enda með þessum hætti og er ekki hægt annað en að hrósa þeim fyrir að hafa séð það fyrir. Við sjáum í dag að ekki hefur tekist að hrófla neitt við þessu í nefndinni, þ.e. að vinda ofan af því sem ráðherrann tók sér fyrir hendur. Þar af leiðandi virðist það vera rétt sem Samorka komst að í apríl síðastliðnum.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvaða afleiðingar mun það hafa? Væntanlega verður áætlunin samþykkt einhvern tíma á næstu vikum. Þá spyr ég: Hversu lengi mun rammaáætlunin lifa sem hér er farið fram með? Ég hygg nefnilega að einhverjir úr öllum flokkum nema kannski Vinstri grænum muni beita sér fyrir því að málið (Forseti hringir.) verði tekið upp frá grunni.