141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns fyrst þá lifir rammaáætlunin bara þessa hæstv. ríkisstjórn og enga aðra, fyrst farið er af stað með þessum hætti. Það er skoðun mín,

Hv. þingmaður vitnar hér til þess sem stendur í umsögn Suðurorku. Ef við förum bara yfir umsögn Landsvirkjunar segir þar, með leyfi forseta:

„Við undirbúning þingsályktunartillögunnar gerði Landsvirkjun m.a. athugasemdir um þessi atriði með bréfi dags. 9. nóvember 2011. Hvorki var tekið tillit til þeirra athugasemda, né fjallað um þær í greinargerð við tillöguna.“

Ef við tökum umsögnina frá Orkustofnun, sem er opinbert fyrirtæki og hefur gríðarlega þekkingu á þessum málum eðli málsins samkvæmt, stendur þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnarinnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar, en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmunina fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og orkunýtingu eins og sú tillaga gerir ráð fyrir. Þannig yrði lagður grunnur að stöðugu umhverfi fyrir atvinnuuppbyggingu á sviði orkuiðnaðar, ferðamála og annarrar landnýtingar.“

Svona lagað er ekki mjög algengt að sjá í umsögn frá opinberri stofnun eða ég hef að minnsta kosti ekki séð það. Ég hef reyndar ekki verið hérna mjög lengi, bara þetta kjörtímabil. En það segir okkur auðvitað að menn sem unnu að verkefninu nálguðust það með það að markmiði, eins og við köllum hér eftir, að taka tillit til allra sjónarmiða, hvort heldur sem þau eru um að virkja sem mest eða þá sem minnst, þannig að menn nái samkomulagi um einhverja niðurstöðu sem þeir geta staðið við. Stjórnvöld á hverjum tíma munu þá standa að því samkomulaginu af því að þau eiga þátt í því. Með svona vinnubrögðum verður þetta bara rammaáætlun þessarar hæstv. ríkisstjórnar.