141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn heyrði það í andsvari mínu hér áðan að ekki er nóg með að ASÍ hafi verið mjög hallt undir ríkisstjórnina. Það hefur kannski goldið fyrir það í störfum sínum að forseti ASÍ sóttist eftir áhrifastöðum innan Samfylkingarinnar, við skulum halda því til haga. Jafnframt er yfirlögfræðingur ASÍ varaþingmaður Samfylkingarinnar, hann sat hér á þingi í eina sex mánuði nú fyrir skömmu. Höfuðstöðvarnar sjálfar hafa verið mjög tengdar Samfylkingunni. Það á ekki við um alla þá aðila sem greiða félagsgjöld í félög innan ASÍ og þess vegna er ég að tala um verkalýðinn sjálfan á Íslandi, við erum að tala hér um hinar vinnandi stéttir, vinnandi hendur, þær eru með þessari yfirlýsingu búnar að gefast upp á ríkisstjórninni.

Ég get hins vegar ekki verið sammála þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að það sé ágætt að fá vinstri stjórnir af og til. (ÁJ: Nei, það er ekki hægt.) Nei, það er ekki hægt, hv. þm. Árni Johnsen. Eins og kom fram í máli þingmannsins hefur þessi ríkisstjórn valdið íslensku þjóðarbúi svo miklu tjóni að rætt hefur verið um að skaðinn sé jafnvel meiri af ríkisstjórninni fyrir íslenskt þjóðarbú en sjálft bankahrunið, og þá er nú mikið sagt. Ég tel að ekki eigi að þurfa að leggja það á sjálfstæða þjóð að fá svona hörmungarríkisstjórnir yfir sig, það má alveg líkja þessari ríkisstjórn við faraldur. Þetta er einhvers konar faraldur sem við lentum óvart í vegna þess að þessir flokkar voru með froðusnakk og froðuloforð fyrir kosningarnar sem þeir hafa svo ekki staðið við í neinu einasta tilfelli. ESB-flokkurinn, Vinstri grænir, ætlaði aldrei að ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) þeir voru varla komnir hingað inn í þinghúsið þegar þeir voru búnir að svíkja það loforð.