141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðuna.

Mig langar að ræða sérstaklega áhrif rammaáætlunar og spyrja hv. þingmann út í áhrif hennar á það kjördæmi sem hv. þingmaður starfar fyrir.

Nú er það svo að þær breytingartillögur sem verið er að leggja til í rammaáætlun, þ.e. þær breytingartillögur þar sem verið er að leggja til að víkja frá faglegri nálgun, munu koma niður á Suðurlandi og verst niður á Suðurkjördæmi. Langflest þeirra verkefna sem áttu að fara af stað eru í kjördæmi hv. þingmanns. Nú heyrum við reglulega fréttir, til dæmis úr Skaftárhreppi, af áhyggjum manna af því hversu veikt byggðarlagið er þar og hvernig sú byggð stendur. Við heyrum það víðar að að ákall er um atvinnuuppbyggingu, það er ákall um að stjórnvöld móti regluverk þannig að hægt sé að nýta auðlindir þjóðarinnar til atvinnuuppbyggingar og til tekjumyndunar fyrir ríkissjóð og samfélagið.

Getur hv. þingmaður farið aðeins yfir það — af því að ég veit að hv. þingmaður er í mjög góðum tengslum við kjördæmi sitt og við sitt fólk og fer víða og hittir marga — hvernig hljóðið er í fólki sem hv. þingmaður hefur heyrt í varðandi rammaáætlunina og þær breytingar sem búið er að gera á henni? Hvað brennur á fólki? Hvernig er umræðan og hvernig líta íbúar Suðurkjördæmis, þeir sem hv. þingmaður er í sambandi við, á stöðu þessa máls í þinginu í dag?