141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:27]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólkið í Suðurkjördæmi lítur á meðferð hæstv. ríkisstjórnar á málefnum er varða Suðurkjördæmi, á stóru málunum, sjávarútvegsmálunum og rammaáætlun, ekki bara sem blauta tusku í andlitið heldur kjaftshögg, fastari en jafnvel tíðkast að sjómannasið.

Það er nú svo að hv. þingmenn á virðulegu Alþingi hafa kallað okkur talsmenn fólksins í landinu fábjána, og það er allt í lagi. Fólkið þekkir okkur, það veit hvað við stöndum fyrir með kostum og göllum, en fólkið kann að meta og vinsa úr því hvað er brúklegt í þeim efnum.

Þetta er nú það sem við búum við. Orðbragð á þennan hátt er svona pörupiltalegt, jafnvel þó að konur segi það, en það verður bara að hafa gaman af því. Þetta er eins og þegar hvessir, sérstaklega í Stórhöfða, þá er stundum vont að standa á fótunum en menn hanga þá í grösunum eins og fábjánar.

Virðulegi forseti. Hvað gerir fjölskylda með börn þegar hún á ekki fyrir mat? Hvað gerir hún? Hún gerir allt sem hægt er til þess að afla matar fyrir fólkið sitt, aflar matar fyrir börnin. (Forseti hringir.) Myndin er ekki flóknari en það, virðulegi forseti, í því sambandi. (Forseti hringir.) Það gildir hið sama varðandi nýtingu auðlinda landsins.