141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, mig langar einmitt að ræða við hv. þm. Árna Johnsen um það. Nú hefur komið fram og hv. þingmaður kom inn á það í máli sínu að með þessu værum við líklega að tapa um fimm til sex þúsund störfum — eða þ.e. þessi fimm til sex þúsund störf hefðu orðið til ef við hefðum fylgt faglegri nálgun verkefnisstjórnarinnar. Og það er staðreynd. Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að svokölluð fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að skapa mikil störf inn í framtíðina og auka hagvöxt. Þar er til dæmis lagt til að auka fé til hönnunarmála, hækka laun listamanna o.s.frv. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þá fjárfestingaráætlun og hvort hann sé sammála þeim stjórnarandstöðuþingmönnum og fleirum sem hafa talað í þessu máli (Forseti hringir.) um að sú fjárfestingaráætlun muni ekki skapa fimm til sex þúsund störf og 270 milljarða á næstu fjórum árum.