141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðu hans. Við erum báðir þingmenn í Suðurkjördæmi og á síðastliðnum þremur árum hefur verkalýðsforustan á Suðurlandi haldið fundi með okkur þingmönnum. Þar hefur umfjöllunarefni fundanna nánast alltaf verið það sama. Send voru út gögn eða glærur þar sem spurt var: Hvenær verður útboð hafið á virkjununum í neðri hluta Þjórsár? Hvenær verður farið af stað í þær framkvæmdir? Hvenær verður farið af stað með stórskipahöfn í Þorlákshöfn og stóriðju og hvenær verður farið í þetta og hitt?

Við hv. þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þm. Árni Johnsen, höfum auðvitað ekki getað svarað því en höfum bent á stjórnarliðana í þingmannahópnum og sagt: Spyrjið þið þau. Það hafa sífellt komið nokkuð glaðhlakkalegar yfirlýsingar frá þeim um að allt sé þetta nú að koma, samanber yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um sjö þúsund störf sem voru orðin tugþúsundir að ég held því að búið var að lofa þeim svo oft, en þau komu aldrei.

Nú sjáum við hvað stefnir í og er ekki að furða að megn óánægja ríki innan Alþýðusambandsins. Nú kemur einfaldlega í ljós að í rammaáætlun, sem meiri hlutinn ætlar að samþykkja óbreytta, verður engin uppbygging í þeim geira, engin. Það er óþarfi að halda slíka fundi með okkur á næstu árum ef svo heldur fram sem horfir í rammaáætlun.

Ég trúi því ekki fyrr en það gerist í þingsalnum að þingmenn Samfylkingarinnar t.d. í Suðurkjördæmi muni styðja þessa þingsályktunartillögu, ég skil það ekki. Og í ljósi einstakra yfirlýsinga, hv. þm. Árna Páls Árnasonar í kvöld (Forseti hringir.) og hv. þm. Kristjáns L. Möllers vænti ég þess að menn nái einhverju saman … (Forseti hringir.) í málinu áður en yfir lýkur.