141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður minntist á Helguvík og álverið þar er það auðvitað sama marki brennt og það sem spurt hefur verið um á fundunum, stjórnarþingmenn hafa ætíð svarað því til að við séum að bíða rammaáætlunar. Við munum ekki bíða lengur ef rammaáætlunin gengur til atkvæða eins og hún er kynnt af meiri hlutanum, þá þarf ekki að bíða lengur. Þá er búið að stöðva það allt saman.

Varðandi álverið í Helguvík og allt það klamm sem verið hefur í kringum það var það forsenda hagvaxtaraukningar fyrstu þrjú árin af þessu kjörtímabili. Nú á að vera hagvaxtaraukning vegna stóriðjuframkvæmda á norðausturhorninu. En í stuttu svari sem ég fékk varðandi stórskipahöfnina segir að ekkert sé verið að vinna í því máli.

Þá er því hins vegar lofað að styrkja innviðina í Þingeyjarsýslum. Það eru engir fjármunir í fjárlögunum til þess, en það þarf að gera það, það þarf 2,6 milljarða til þess að forsendur hagvaxtarspárinnar muni standa. (Forseti hringir.) Ég spyr: Á hverju á að byggja hagvöxtinn á næstu árum ef það er allt loft, (Forseti hringir.) froða?