141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Tveir virkjunarkostir í Þjórsá eru færðir í biðflokk. Ég hygg að flestir sem hér hafa talað hafi sagt varðandi Urriðafossvirkjun að þar þurfi að fara varlega, að taka þurfi tillit til ýmissa þátta þar og þess háttar, en að það sé óskiljanlegt að hinar tvær skuli ekki vera í nýtingarflokki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þeirrar einföldu spurningar: Hvað telur hann að hafi orðið þess valdandi að ráðherrarnir ákváðu að færa þessa kosti úr nýtingarflokki í biðflokk? Áttu sér stað pólitísk hrossakaup þar? Var verið að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar? Á hverju hékk þessi ákvörðun ráðherranna?

Það er síðan athyglisvert að lesa umsögn Orkustofnunar sem fer yfir stöðuna og segir frá því hvað gerst hefur við breytingar á rammaáætlun og annað. Varað er við því að áherslurnar séu færðar úr vatnsaflinu yfir í jarðhitann eins mikið og gert er, þar sé allt öðruvísi vinnsla. Það þurfi að bora rannsóknarborholur og svo sé svæðið virkjað smám saman. Þar er í raun minni þekking og þarf að afla þekkingar nánast jafnóðum á svæðinu. Það er nýtt. En meginspurningin er þessi: Hvað telur hv. þingmaður að hafi orðið þess valdandi að farið var í þá undarlegu aðgerð?