141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom hér inn á fjögur mál sem er greinilega gríðarlega mikill ágreiningur um í stjórnarliðinu, þ.e. stjórnarskráin, breytingar á henni, rammaáætlun, Evrópusambandsmálin og fiskveiðistjórnarkerfið. Við sjáum það, m.a. á ummælum hv. þm. Árna Páls Árnasonar núna í kvöld um stríðið sem virðist vera í gangi milli forustumanna ríkisstjórnarinnar og alþýðu landsins, Alþýðusamband Íslands, að það er mikill ágreiningur í öllum stærstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar, bæði innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra. Það kemur glögglega fram.

Það er algjörlega einsdæmi að ráðherrar ríkisstjórnar skuli vera komnir í opinbert hart stríð við Alþýðusamband Íslands eins og við höfum orðið vitni að í fjölmiðlum í dag þar sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var í einhvers konar kappræðum í Kastljósi, í útvarpsþáttum og annars staðar við Alþýðusamband Íslands.

Það var rifjað upp í ræðu hér áðan að oft og tíðum í sögunni, þegar þannig væri komið, hefði það leitt til þess að menn sæju að ekki væri lengur við svo búið og hafa ríkisstjórnir þurft að fara frá vegna þess því að það er mikilvægt að geta átt gott samstarf, þó að menn greini á um einhver atriði, við aðila eins og Alþýðusamband Íslands.

Nú liggur algjörlega fyrir að öll mál sem snúa að vinnumarkaðnum og fleiri þáttum eru í uppnámi. Hvað gerir ríkisstjórnin til þess að bregðast við því? Tala menn saman um það? Nei, þeir fara í opinbert orðastríð. (Forseti hringir.) Það sjá allir hvernig þetta mun enda, þetta getur ekki endað öðruvísi en svo að þessi ríkisstjórn fari frá og þá verður auðvitað að breyta hér um vinnulag.