141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:00]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga ræðu og gott innlegg í umræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi það sem hann vék að og lýtur að sviknum loforðum hæstv. ríkisstjórnar með ótrúlegri aðkomu Alþýðusambands Íslands þessa dagana.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort til að mynda svikamyllan í kringum stöðugleikasáttmálann, sem átti að vera burðarás í því að rétta skútuna af í ólgusjó, sé kannski ekki fyrsta skrefið í þeirri alvarlegu upplausn og þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur milli ríkisstjórnarinnar og fólksins í landinu og um leið verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann um þær yfirlýsingar frá forustumönnum samtaka, sem yfir 100 þús. Íslendinga eru í í dag, um að samningarnir, sem áttu hægt og sígandi að verða kjölfesta og jafnvægi til árangurs í samfélaginu, hafi verið sviknir og rifnir upp með rótum og hent út í veður og vind, svo maður dragi nú saman þær lýsingar á hæverskan hátt sem forseti Alþýðusambandsins hefur viðhaft. Það vil ég spyrja hv. þingmann um.