141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða mínum tveimur mínútum í að fjalla um hugarheim einhverra ákveðinna stjórnmálamanna. Ég held raunar að það ástand sem nú er uppi snúist ekki endilega um vinstri eða hægri. Ég held að það snúist frekar um hvernig við nálgumst viðfangsefnið. Ég held að það snúist ekki um grunngildin í stjórnmálunum. Það snýst um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið á erfiðum tímum eins og nú eru. Nálgumst við það með það að leiðarljósi að ná um það breiðri sátt eða samstöðu eða nálgumst við það hvert og eitt með það að markmiði að gefa ekki neitt eftir og ætlum bara að ná okkar ýtrustu kröfum í gegn?

Þegar kemur að atvinnumálum hef ég kallað eftir því, m.a. í þessari umræðu, að menn fjalli um með hvaða hætti ráðast eigi í atvinnuuppbyggingu hér og hvað eigi þá að koma í staðinn fyrir þessi fimm til sex þúsund störf sem ekki munu skapast. Það er gott og gilt sjónarmið. Ég hef til að mynda verið talsmaður þess að við eflum og styrkjum og ýtum undir ferðaþjónustu. Maður sér það ekki í tillögum ríkisstjórnarinnar að mikið sé hugað að uppbyggingu í ferðaþjónustu þegar ríkisstjórnin ætlar að leggja það til að skattar á gistinætur á Íslandi verði með því hæsta sem þekkist í heiminum. Ekki er það stóriðjuatvinnugrein, ferðaþjónustan er nú mjög græn atvinnugrein. Ég fór inn á það í ræðu minni, meðal annars í tengslum við skattabandorm ríkisstjórnarinnar þar sem leggja á til þessa skattlagningu, að samkvæmt samanburði á skattumgjörð um atvinnuuppbyggingu og fjárfestingum í atvinnulífi sem gerður er á milli 144 þjóðríkja hrapar Ísland hratt niður listann. Það er komið nú niður í 119. sæti (Forseti hringir.) af 144 á þessum lista. Það hefur hrapað úr 20. sæti, þar sem það var árið 2009, og hrapaði mest milli áranna 2011 og 2012.