141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í tengslum við þetta mál hafa verið töluvert ræddar, sem er ósköp eðlilegt, þær yfirlýsingar og auglýsingar sem voru í dag frá Alþýðusambandi Íslands og merkilegt að stór fundur hjá ASÍ með formönnum aðildarfélaga — það var einhver slíkur fundur að ég held — hafi ákveðið að hætta að tala við ríkisstjórnina, þreyja þorrann eins og sagt er. Það eru vitanlega stórtíðindi. Það eru stórtíðindi þegar slíkt gerist. Ástæðan er óskemmtileg, vanefndir að þeirra sögn.

Ég ætla ekki í þetta skipti að fara nánar út í það en þetta tengist þó því að Alþýðusambandið taldi sig hafa ákveðin vilyrði fyrir því að rammaáætlunin mundi flýta fyrir framkvæmdum sem mundu fjölga störfum og skila tekjum í þjóðarbúið. En vegna þeirra breytinga sem gerðar voru virðast menn á því að það muni ekki ganga eftir.

Í áliti Orkustofnunar sem var sent til umhverfis- og samgöngunefndar vegna þessa máls kemur fram, með leyfi forseta — ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr álitinu, Orkustofnun er aðili að verndar- og nýtingaráætluninni þar sem þeir tóku þátt í þeirri vinnu, þ.e. fulltrúi stofnunarinnar eða orkumálastjóri, sem er náttúrlega yfirmaður þarna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Orkustofnun er því aðili máls og sér þess vegna ekki ástæðu til að tjá sig um meginefnisþætti framangreindrar þingsályktunartillögu, sem Orkustofnun hefur kynnt sér, að öðru leyti en því að tillagan víkur frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar og upphaflegri þingsályktunartillögu, sem fór til umsagnar. Á þetta einkum við um flutning á þremur virkjunarkostum í vatnsafli á Suðurlandi, það er nr. 31 Urriðafossvirkjun, nr. 29 Hvammsvirkjun og nr. 30 Holtavirkjun, öllum í Þjórsá. Tillagan gerir þannig ráð fyrir að hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostir verði fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þá eru virkjunarkostir í háhita, nr. 91 og nr. 104 Hágönguvirkjun, 1. og 2. áfangi, sem og virkjunarkostur í vatnsafli nr. 26 Skrokkölduvirkjun, einnig fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.“

Orkustofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á með nokkrum faglegum eða réttmætum hætti að þessi breyting sé réttmæt.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnarinnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmuni fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og orkunýtingu eins og sú tillaga gerir ráð fyrir. Þannig yrði lagður grunnur að stöðugu umhverfi fyrir atvinnuuppbyggingu á sviði orkuiðnaðar, ferðamála og annarrar landnýtingar.“

Það verður að segjast eins og er að það er allsérstakt að opinber stofnun, opinbert fyrirtæki, skuli vera svona harðorð í rauninni gagnvart þeirri vinnu sem fór hér fram eftir að það sem þeir kalla faglega vinnu hafi verið lokið. Því hljótum við að horfa til þessa og undirstrika það í umræðum okkar að það eru ekki bara einhverjir sérvitrir þingmenn sem hafa af þessu áhyggjur og telja að ekki hafi verið unnið rétt með þessum breytingum heldur eru það líka fagaðilarnir sem koma að málinu. Og í þessu tilfelli ríkisstofnunin Orkustofnun sem gagnrýnir þetta, ég vil leyfa mér að segja mjög harkalega. Ég mun síðar í kvöld eða á morgun fara yfir fleira en álit Orkustofnunar og mun koma inn á önnur álit síðar.

Sammerkt er með mörgum þeirra, auðvitað ekki öllum, það er mjög stór bunki af álitum sem fylgir þessu, hálfgerð fjöldaframleiðsla, en sammerkt með þeim sérfræðistofnunum, sérfræðifyrirtækjum, ef má orða það svo, hvort sem það voru rannsóknarfyrirtæki eða orkufyrirtækin sjálf, er að mjög var varað (Forseti hringir.) við þeirri vegferð sem farið var í af hendi stjórnarflokkanna.