141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað vonar maður að til séu öfl eða aðilar innan stjórnarflokkanna sem eru þess megnugir að grípa í taumana og breyta um kúrs. Ég held hins vegar að þegar menn setjast niður og meta stöðuna geti það kostað þá ríkisstjórnarsamstarf, þar af leiðandi held ég, því miður, að það verði ekki. En við skulum lifa í voninni. Við höfum farið fram á að boðaður verði sameiginlegur fundur í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd til að taka á móti aðilum vinnumarkaðarins og fara yfir þá stöðu, hlýða á þá. Kannski opnast þar einhverjar dyr sem gera það að verkum að menn vilja skoða þetta eða endurskilgreina eða hvað á eiginlega að kalla þetta allt saman, breyta þessu, orðum það bara þannig. En því miður held ég að þegar á hólminn er komið verði það ekki.

Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að reyna áfram að fá einhverju framgengt með það, í það minnsta að fundur verði haldinn og að hann verði helst opinn fjölmiðlum þannig að menn geti fylgst með þeirri umræðu. Þetta á ekki að vera neitt pukur. Það hefur verið pukur um þetta mál nógu lengi milli stjórnarflokkanna þannig að nú þarf að reka þetta allt á yfirborðinu eins og átti að vera.

Hv. þingmaður talaði um hreina og tæra vinstri stjórn. Sjálfur nota ég þau orð allt of oft, þetta er hins vegar bara vinstri stjórn. En það verður að segjast eins og er að það er fátt hreint og tært í kringum hana, að minnsta kosti eru vinnubrögðin þau að vinna allt einhvern veginn undir yfirborðinu sem ber ekki vott um mikinn tærleika. Ég verð því að segja að ég held að við þingmenn verðum að fara að taka okkur önnur orð í munn.

Hv. þingmaður spurði: Hvað er til ráða? Ég held að ekkert annað sé til ráða en að reyna að halda áfram að vekja athygli á hversu vitlaust þetta mál er, vekja athygli á því að nauðsynlegt sé að hlusta á þá sem hafa gagnrýnt það og vekja athygli á því að (Forseti hringir.) það eru einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum sem við vitum að eru annarrar skoðunar.