141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í nefndaráliti frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, nánar tiltekið á bls. 50, er frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun frá Sjálfstæðisflokknum. Í greinargerðinni þar er ansi gott sögulegt yfirlit um alla vinnuna sem unnin hefur verið. Af því að menn hafa verið að nefna ýmis ártöl segir hér, með leyfi forseta:

„Áður hafði þó mikil vinna farið fram og má rekja hana allt aftur til ársins 1993 þegar umhverfisráðherra skipaði starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál sem var meðal annars falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta. Hópurinn lagði til að unnin yrði rammaáætlun um nýtingu vatnsafls.“

Þetta var árið 1993. Ég man eftir mörgum umræðum þar sem menn hafa kallað eftir rammaáætlun og lagt áherslu á mikilvægi þess að flýta gerð rammaáætlunar þar sem faglega yrði unnið að því að flokka virkjunarkosti svo ekki þyrfti að karpa lengur um virkjunarkosti út frá óljósum tilfinningum eða út frá því sem fólki fyndist. Allir voru sammála um það. Ég hef aldrei heyrt stjórnmálamann eða nokkurn mann segja: Heyrðu, nei, það er ekkert vit í þessu. Við skulum ekki vinna þetta með þessum hætti. Við skulum ekki vinna þetta faglega.

Fyrirhuguð rammaáætlun var á þeim tíma ekki einu sinni gagnrýnd út af kostnaðinum sem henni mundi fylgja, menn vissu að þetta yrði dýrt, að þetta gæti kostað milljarða. En það var ekki gagnrýnt vegna þess að allir, fullyrði ég, sem að þessum málum komu sáu skynsemina í því að vinna faglega rammaáætlun. Slík rammaáætlun þýðir ekki að allir þurfi að vera sáttir við niðurstöðuna. Það þýðir ekki og átti aldrei að þýða að til yrði plagg þar sem stæði: Fyrst skal fara í þessa virkjun, svo í þessa o.s.frv. Þetta snýst um að flokka kostina. Vinstri grænir geta síðan áfram haft þá skoðun að ekki eigi að virkja neitt. Rammaáætlun átti aldrei að verða einhver skuldbinding um að sá flokkur ætti til dæmis að taka upp þá stefnu að virkja þá kosti sem lentu í nýtingarflokki. Hún snerist bara um að taka bestu upplýsingarnar, vinna úr þeim gögnum sem væru til staðar — og ef gögn vantaði þá að rannsaka — þannig að hefðum grunn undir umræður um umhverfisvæna orkuöflun á Íslandi.

Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að til væru stjórnmálaöfl sem væru á móti þessu. Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að til væru stjórnmálaöfl sem beittu brögðum á lokametrunum til að skaða alla þessa vinnu. Innan þeirra stjórnmálaafla eru þó stjórnmálamenn eins og hv. þm. Kristján Möller sem hefur stigið fram og sagt eins og er að búið sé að eyðileggja þessa vinnu. Það er niðurstaðan. Eins og ég sagði, hef sagt og ætla að halda áfram að segja — og ég held að það skipti máli að allir séu meðvitaðir um það hvað hefur gerst: Mesti skaðinn er ekki sá að í íslenskum stjórnmálum séu menn ósammála um hversu mikið eigi að virkja. Það er ekki stóri skaðinn. Þannig er það, þannig var það, þannig verður það.

Mesti skaðinn er sá að það sem sátt hefur ríkt um í áratugi, það sem búið er að fjárfesta í svo milljörðum skiptir, sé eyðilagt eða skemmt verulega. Það er ömurlegt til þess að hugsa að nú er búið að skapa það fordæmi að stjórnmálamenn geti farið að krukka í þessi plögg. Fordæmið er komið. Hrossakauparíkisstjórn Alþýðubandalagsflokkanna skapaði það fordæmi. Það eiga báðir Alþýðubandalagsflokkarnir sameiginlegt, Samfylkingin og Vinstri grænir, að þegar kemur að hrossakaupum eru þeir á heimavelli. Þar er þetta fólk á heimavelli. Þeir eru ekki sammála í öllu en þeir eru sammála um að þau vinnubrögð skuli viðhöfð. Til að slá ryki í augu almennings eru það kölluð fagleg vinnubrögð. Engin ríkisstjórn hefur gengið jafnlangt í því að gera lítið úr faglegum vinnubrögðum og þessi stjórn vinstri flokkanna.