141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá að það varð allt heiðskírt í andliti hv. þingmanns þegar hann fór að tala um að það væri svo gott að hafa allt á miðjunni. Það er augljóst í hvaða stjórnmálaflokki hv. þingmaður er. Ég deili kannski ekki alveg þeim miðjudraumi með honum þó að oft geti verið gott að vera á miðjunni, það er annað mál.

Aðalatriðið er hugmyndafræðin. Menn tala um að það hafi verið Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hófu þetta ferli. Miðað við það sem fram kemur í greinargerðinni í tillögu okkar sjálfstæðismanna — og nú þekki ég þessa sögu ekki þannig að ég kunni að segja nákvæmlega frá því — virðist þetta hins vegar hafa farið af stað árið 1993 og þá væntanlega í ráðherratíð umhverfisráðherra Alþýðuflokksins sáluga og í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaðan málið er ættað. Sem betur fer hefur verið sátt um að vinna hlutina á þennan hátt alveg þar til nú á síðustu metrunum að Alþýðubandalagsflokkarnir rjúfa þá sátt og fara þessa leið.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum aftur inn á faglegu brautina, að við förum aftur inn á sáttabrautina, að við förum aftur að vinna þetta eins og lagt var upp með. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það skapast hætta þegar þetta skelfilega fordæmi er komið. Það er hætta á því að önnur ríkisstjórn, sama hvaða flokkar mynda hana, noti það sem átyllu til að fara í hina áttina eða aftur í þessa sömu átt. Aðalatriðið er að hér er hætta á ferðum vegna þess að búið er að skapa slæmt fordæmi og við þurfum að hverfa af þeirri braut.