141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr af hverju ég telji að sáttin sé úti akkúrat þegar Alþýðubandalagsflokkarnir taka við, af hverju það sé. Svarið liggur kannski í því að þetta eru Alþýðubandalagsflokkar. Vinstri grænir koma alveg beint úr Alþýðubandalaginu. Samfylkingin var yfirtekin mjög fljótlega af Alþýðubandalaginu. Ef þinglið núverandi þingflokks Samfylkingar er skoðað finnst þar varla krati, svo að við notum það orð. Þar finnst einn sem hefur búið á Siglufirði lengst af sem hefur nánar tiltekið sagt að rammaáætlunin hafi mistekist.

Ef maður vill kynna sér sögu Alþýðubandalagsins er til áhugaverð bók sem heitir Alþýðubandalagið, átakasaga. Það má alveg hafa gaman af þeirri bók en hún er sorglegt dæmi um skelfilegan stjórnmálaflokk. Einhver sagði að sá stjórnmálaflokkur hefði dáið úr leiðindum. Ég held að það sé mjög mikið til í því, virðulegi forseti, því að kúltúrinn í þeim stjórnmálaflokki var skelfilegur og einkenndist af átökum, hrossakaupum og öðru slíku. Þó svo að orðræðan og áróðurinn væri ágætur oft út frá þeirra sjónarmiði, þeim tókst oft að slá ryki í augu almennings, þá ættum við kannski að horfa til þess að þeir meina ekki mjög mikið með því þegar þeir tala um fagleg vinnubrögð, jafnvel umhverfisvernd og náttúruvernd, (Forseti hringir.) því að það er annað sem knýr þá áfram. Þarna eru átakastjórnmál í sinni tærustu mynd.