141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Í fréttum hafa verið viðtöl við ýmsa í dag varðandi yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands. Á Morgunblaðsvefnum er eftirfarandi haft eftir forseta ASÍ, með leyfi forseta:

„Umræða um fyrirkomulag efnahagsmála í framtíðinni, gengi, fjárfestingar og efnahagsstefnu verður að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“

Þetta eru býsna hörð orð frá fulltrúa þessara stóru samtaka sem lýsir því yfir að samtökin séu búin að gefast upp á að eiga samskipti við ríkisstjórnina. Við höfum svo sem heyrt fyrir löngu forsvarsmenn atvinnulífsins segja það sama, þó ekki jafnákveðið og Alþýðusambandið. Ríkisstjórnin hefur hrint frá sér aðilum vinnumarkaðarins í heild, sýnist mér, útilokað þá, því að ekki á að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið samkvæmt fullyrðingum Alþýðusambandsins. Þar af leiðandi virðast forustumenn Alþýðusambandsins vera farnir að bíða eftir því að ný ríkisstjórn taki við, það er ekki hægt að lesa það öðruvísi en að þeir vonist til þess að það verði ný ríkisstjórn, að sú sem nú situr fái ekki áframhaldandi umboð, þar sem væntanlega yrði erfitt fyrir Alþýðusambandið að tala ekki við sitjandi ríkisstjórn í þau fjögur ár sem kjörtímabilið er.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort það séu ekki býsna stór tíðindi, sem við hljótum að þurfa að ræða næstu daga í þinginu, þegar samskipti milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins eru komin í slíkan hnút að ekkert (Forseti hringir.) traust og enginn trúnaður virðist ríkja milli þessara aðila.