141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota þessar fimm mínútur sem ég hef til að fara yfir einn þátt í umsögn minni sem send var umhverfis- og samgöngunefnd eftir umfjöllun okkar í atvinnuveganefnd, þ.e. þær hugmyndir sem hafa verið um að virkja útfallið eða farið út úr Hagavatni, Hagavatnsvirkjun. Það sem er áhugavert við þessa virkjun er að hugmyndirnar að henni spretta fyrst upp sem umhverfisverkefni til að hefta sandfok. Það eru auðvitað heimamenn sem fá þær hugmyndir og ná samstarfi við Landgræðslu ríkisins og hefur það verið ítarlega skoðað um allnokkurt skeið, eftir að menn náðu að stækka sandvatnið sem er á sambærilegu svæði og náðu gríðarlega góðum árangri því að reynslan var góð af því að endurheimta það í þeirri stærð sem það var. Þarna er í raun og veru verið að endurheimta útfall sem fór úr vatninu eða braust út fyrir 80 árum og hefur þar af leiðandi runnið þar um 80 ára skeið, það er verið að endurheimta fyrri verðmæti. Á bak við þessa tillögu eru mjög jákvæðar umsagnir og mikil samstaða heimafólks, ferðaþjónustu, landeigenda og sveitarstjórnarinnar í Bláskógabyggð og aðliggjandi sveitarstjórna.

Á fundi atvinnuveganefndar undir lok umfjöllunar okkar fengum við Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Ólaf Arnalds prófessor til þess að ræða áhrifin af sandfokinu og landgræðsluþættina. Það kom fram í máli þeirra að stífla eða virkjun, sem halda mundi vatnsborði Hagavatns stöðugu, mundi án efa minnka uppblástur frá Hagavatnssvæðinu.

Það sem menn hafa sett út á í sambandi við þær hugmyndir sem hafa verið um svæðið er að vatnsborðið rokki mjög mikið, frú forseti, og þess vegna verði ekki alltaf minna sandfok heldur geti það komið í bylgjum. Menn hafa líka sett út á að þarna verði loftlínur sem séu sjónmengandi og skemmi ásýnd svæðisins fyrir þeim sem ferðast um það. Báðum þessum þáttum svaraði Íslensk vatnsorka því til þegar hún kom fyrir nefndina að þarna væru hugmyndir um svokallaða jafnrennslisvirkjun, þ.e. að halda vatnsborðinu eins stöðugu og hægt er, sem mundi væntanlega þýða að orkunýting yrði minni á einhverjum tímapunktum, en aðaltilgangurinn væri að ná upp vatnsborðinu til að hefta sandfokið. Ein af aðallínunum sem liggja frá virkjunarsvæði Þjórsár og Tungnaár yfir á Vesturland liggur þarna rétt hjá og það yrði því mjög auðvelt að setja streng frá þessari virkjun í jörðu þannig að hann ylli aldrei sjónmengun. Þar fyrir utan mundu þeir vegir og það sem yrði gert þarna nýtast ferðaþjónustunni og öðrum sem þarna vilja fara um og yrði það þar af leiðandi til mikilla bóta.

Í ofanálag fylgir minnisblað umsögn minni frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins sem fór yfir þá kosti sem eru í biðflokki og taldi, eins og ég hef komið inn á í nokkrum andsvörum, að mest rök væru fyrir því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Þessu fylgir mjög skýr greinargerð og niðurstaða orkuskrifstofunnar er sú að í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar komu upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að Hagavatnsvirkjun rýri gildi svæðisins fyrir ferðamenn, og jafnframt að virkjunin sé líkleg til að draga úr uppblæstri og sandfoki og auka möguleika á landgræðslu. Því var í umsagnarferlinu brugðist við þeim atriðum sem tilgreind voru í rökstuðningi þingsályktunartillögunnar fyrir flokkun í biðflokk. Með vísan til þessa og að með framkvæmdinni verði fyrra horf Hagavatns endurheimt þyki rétt að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Ég hyggst leggja fram breytingartillögu við málið fyrir atkvæðagreiðslu þar sem ég mun leggja til að Hagavatnsvirkjun (Forseti hringir.) verði færð úr biðflokki í orkunýtingarflokk í samræmi við greinargerð orkuskrifstofunnar.