141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina um þennan virkjunarkost, Hagavatn. Í raun og veru er alveg óskiljanlegt að sá kostur skuli ekki vera í nýtingarflokki, eins mikil samstaða og er um hann, og þá er ég kannski ekki síst að vitna til samstöðunnar heima í héraði. Landgræðslan gefur til dæmis jákvæða umsögn um hann og það er alveg ljóst að virkjun hans mun hafa verulega jákvæð áhrif á lífsgæði fólks á þessu svæði, það kemur fram í umsögnum og hefur komið fram á fundum með fulltrúum sveitarstjórna á svæðinu.

Hv. þingmaður kemur úr Suðurkjördæmi og það eru fleiri virkjunarkostir þar sem er mikil samstaða um heima í héraði. Við erum með einhverja vænlegustu virkjunarkosti okkar í neðri hluta Þjórsár sem nokkuð rík samstaða hefur verið um hjá stórum meiri hluta heimafólks. Svo erum við með virkjunarkost sem er reyndar settur í verndarflokk, sem er Norðlingaölduveita. Hugmyndir um þann virkjunarkost hafa tekið miklum breytingum og það hefur meðal annars komið fram hjá forstjóra Landsvirkjunar að um sé að ræða hagkvæmasta virkjunarkost landsins að þeirra mati, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Mig langar að biðja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að fara aðeins yfir afstöðu heimamanna til þessa. Ég veit að hann þekkir til á svæðinu og hefur verið í sambandi við fólk sem þekkir hvað best til á þessu svæði. (Forseti hringir.) Hann gæti kannski farið aðeins yfir þá stöðu hér á eftir.