141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þar sem ég á ekki sæti í þeim hv. nefndum sem hafa fjallað um þessi mál, annars vegar atvinnuveganefnd og hins vegar umhverfis- og samgöngunefnd, hefur maður auðvitað ekki getað kafað jafndjúpt í málið. Ég sat þó sem varamaður á tveimur sameiginlegum fundum í vor þar sem farið var yfir áhrifin af virkjununum í Þjórsá sem sneru að áhættunni í sambandi við laxastofnana, það er tiltekið í nefndaráliti meiri hlutans og í breytingartillögunum. Síðan kom Veiðimálastofnun og fór yfir sína kosti.

Það sem vekur undrun mína er að þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar eru við þær framkvæmdir, þ.e. að fara í rennslisvirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir, eru mjög öflugar að mínu mati. Ef við tækjum kannski tvær efri til að byrja með og geymdum Urriðafoss — sú umræða hefur skilað okkur áfram í gegnum tíðina, sem sagt fram í umræðunni, við vitum miklu meira um vatnsaflsvirkjanir, áhrifin af þeim, og þær virkjanir eru komnar lengst í hönnun og nánast tilbúnar til að hægt verði að hefjast þar og með stuttum fyrirvara. Það er því sláandi að lesa síðan varnaðarorð meiri hlutans um það sem snýr að virkjunum á háhitasvæðinu að þær skuli vera settar í nýtingu en hinar í bið. Það er mjög sérkennilegt. Mér er það algjörlega óskiljanlegt miðað við röksemdafærslur meiri hlutans. Þetta er mjög sérkennilegt og þessu þarf að svara með ítarlegri hætti af þeim sem bera ábyrgð á málinu.