141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

framhald umræðu um rammaáætlun.

[02:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég undra mig nokkuð á því að hæstv. forseti skuli ætla að fresta umræðu nú um þetta mál vegna þess að enn eru býsna margir á mælendaskrá og það lítur þannig út að menn séu ekki búnir að ræða málið til enda.

Það vekur athygli mína, frú forseti, að hér hefur þegar verið talað í nær 35 klukkustundir um málið og í seinni umræðunni í yfir 16 tíma. Það vekur líka sérstaka athygli mína, frú forseti, að fluttar hafa verið hátt í 650 athugasemdir. Við erum að ná því að slá met Sjálfstæðisflokksins í málþófi frá því vorið 2009 og viðbrögð hæstv. forseta við því eiga ekki að vera þau að mínu mati að fresta umræðunni nú og fresta fundi heldur leyfa hv. þingmönnum (Forseti hringir.) að halda áfram málþófi sínu inn í nóttina. Hér erum við, ráðherrann, stjórnarliðar (Forseti hringir.) og formaður nefndarinnar til að hlýða á þessar gagnmerku umræður og ekki veigrum við okkur við því.

(Forseti (ÁRJ): Málið er farið af dagskrá.)