141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ASÍ og vinnuveitenda.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Er ekki eitthvert máltæki sem segir: Þangað sækir klárinn þar sem hann er kvaldastur. Svo virðist sem hæstv. ráðherra haldi að það gildi um almenning á Íslandi að almenningur fari virkilega aftur að kjósa yfir sig ríkisstjórn sem fer fram með slíkum svikum sem hér eru dregin upp á yfirborðið. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra skuli halda því fram. (Gripið fram í: Hvaða svik?)

En mig langar að segja við hæstv. forsætisráðherra: Getur það virkilega verið að þeir aðilar, bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, sem gagnrýnt hafa ríkisstjórnina fyrir svik — forsætisráðherra talar um eilíf svikabrigsl — séu einfaldlega að segja ósatt? Að þeir haldi því bara fram en það sé rangt að ríkisstjórnin hafi svikið eitthvað?

Ég ætla að upplýsa forsætisráðherra um það, ef hún hefur ekki kynnt sér það, að í athugasemdum við þingmál 468, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, segir orðrétt í umsögn ASÍ:

„Einnig er ljóst að þingið var að mati ASÍ vísvitandi blekkt með framlagningu bréfs forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra …“

— Vísvitandi blekkt.

Síðan segir í umsögn Samtaka iðnaðarins um sama mál, en þar er verið að tala um auðlindaskatta:

„Með framlengingu sólalagsákvæðisins ganga stjórnvöld á bak orða sinna..“

Það er ekki bara í eitt skipti og ekki bara í tvö eða þrjú skipti sem aðilar vinnumarkaðarins benda á svik ríkisstjórnarinnar heldur er það aftur og aftur og aftur. Samt kemur hæstv. forsætisráðherra hingað upp og reynir að telja þingheimi og þjóðinni trú um að ekkert hafi verið svikið og að þau hafi ekki gengið á bak orða sinna.

Við sjáum það aftur og aftur, virðulegir þingmenn. Við hljótum því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé tilefni til að gera eins og hinn mæti fyrrverandi þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, Hermann Jónasson, gerði, mig minnir að hann hafi sagt af sér vegna þess að hann missti traust Alþýðusambands Íslands á sínum tíma. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að taka hann sér til fyrirmyndar.