141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

beiðni nefndarmanna um gögn um fjárlög.

[10:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra biðjist velvirðingar á því að hafa brotið lög, það er umhugsunarinnar virði. Það er ekki líku saman að jafna þeirri beiðni sem borin var upp af fjárlaganefnd 6. nóvember sl. og því fordæmi frá árinu 2000 sem hæstv. ráðherra vísaði til, þegar Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, þáverandi almennur borgari, leitaði réttar síns. Frá þeim tíma hefur komið ákvæði í lög, þingsköp Alþingis, sem kveður mjög afdráttarlaust á um að ráðherra beri að verða við beiðni þingsins þegar hún er borin svona upp. Það er algjörlega ólíðandi að svona sé komið fram við þingið.

Ég krefst þess, virðulegur forseti, að forsætisnefnd fari yfir þau svör sem ráðherra hefur hér gefið og geri úrbætur í þeim efnum að Alþingi Íslendinga verði gert kleift að sækja sér þær upplýsingar sem þarf til að vinna að fjárlagagerð ríkisins. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)