141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

húsnæðismál á Austurlandi.

[10:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur ekki komið beint inn í velferðarráðuneyti til umfjöllunar. Engu að síður er þetta orðið býsna gamalt mál og ég hef haft miklar áhyggjur af því og fylgst með því. Þegar menn lenda í því að hús dæmast ónýt eða að minnsta kosti óíbúðarhæf vegna myglusveppa er eiginlega engin önnur leið en að endurbyggja húsin og oft verður að rífa þau og byggja ný. Hingað til hafa tryggingafélögin ekki séð um þetta og ef verktakarnir sem hafa byggt húsin hafa ekki verið með örugga tryggingu, margir farnir á hausinn, þá stendur fólk uppi í ótrúlega erfiðri stöðu.

Það voru vangaveltur um hvort stofna ætti sérstaka deild svipað og varðar óvæntar uppákomur til að tryggja gegn þessu. Ég held að við ættum að skoða það áfram vegna þess að þetta er greinilega að koma upp víðar. Ég geri alls ekki lítið úr því, það er augljóst, að þarna fylgir heilbrigðisvandamál og veikindi í framhaldinu. Að sjálfsögðu mun heilbrigðiskerfið svo sinna því.

Fyrirspurnin var hvort Íbúðalánasjóður gæti komið að því að liðka fyrir þannig að fólkið gæti fengið húsaskjól á meðan verið væri að endurbyggja húsin. Ég er að heyra þessa hugmynd í fyrsta skipti hér. Mér finnst sjálfsagt að skoða það. Auðvitað verða menn að spila úr þeim aðstæðum sem eru á hverjum stað og reyna að hjálpast að við að finna lausnir. Ég mun í framhaldi af þessari fyrirspurn ræða við Íbúðalánasjóð eða vekja máls á því að heimaaðilar skoði með hvaða hætti er helst hægt að lagfæra þessi hús. Auðvitað verða menn að fara í þá lagfæringu því að annars heldur þetta áfram og fólk veikist af þeim myglusveppum sem eru í húsunum þarna.