141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ráðherra um makríldeiluna.

[11:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sá sem hér stendur hefur gert sér far um að horfast í augu við staðreyndir og hefur tekist það býsna vel. Meðal annars blasir við sú staðreynd að forustan í Evrópusambandinu hefur sagt það algjörlega skýrt að makrílmálið sé óskylt aðildarumsókninni. Það vill svo til að það hafa flestir íslenskir forráðamenn, jafnvel úr stjórnarandstöðu, líka sagt. Það hentar hagsmunum Íslendinga að halda þessu algjörlega skýrt fram.

Hins vegar tel ég að það hafi hjálpað Íslendingum í makríldeilunni að Íslandi skuli vera í umsóknarferli. Ég tel að einmitt vegna þess hafi ekki verið gripið til þeirra þvingunarráðstafana sem mjög harðir hagsmunahópar innan Evrópusambandsins hafa krafist.

Það er partur af þeim staðreyndum sem við erum að horfast í augu við að gagnvart Evrópusambandinu hafa samningarnir gengið býsna vel hingað til. Okkur hefur gengið vel að opna kafla. Eins og kemur fram munum við í næstu viku opna nokkra kafla til viðbótar þeim sem við höfum þegar hafið samninga um. Hv. þingmaður veit að okkur hefur ekki gengið vel að opna kaflann um sjávarútveg. Ég hef ekki dregið nokkra dul á að hugsanlegt er að því valdi meðal annars einstakar makrílþjóðir sem eru okkur ákaflega reiðar vegna þessarar deilu. Því er ekki fyrir að synja að sumar þeirra liggja undir grun um að hafa af þeim sökum seinkað því að rýniskýrsla Evrópusambandsins um sjó komi fram. Hún liggur í hópi aðildarlandanna, þ.e. í hinum svokallaða COELA-hópi.

Að öðru leyti gekk mér nokkuð illa að skilja spurningarnar í sjálfu sér. Hv. þingmaður vísaði til dæmis til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Hann sagði í viðtali um daginn, rétt er það, að aðstæður kynnu að verða þannig (Forseti hringir.) að sjálfkrafa mundi hægja á viðræðunum, einfaldlega vegna þess að það er búið að opna svo marga kafla.