141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ráðherra um makríldeiluna.

[11:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. utanríkisráðherra. Það er ljóst að firringin sem ég nefndi í fyrri ræðu minni er algjör. Það er ekki rétt að viðræðurnar gangi vel. Áætlunum er sífellt breytt til þess að segja að allt gangi eftir áætlun. Við vitum það öll hér inni og íslenska þjóðin horfir á og sér að þetta gengur ekki neitt.

Ég var á fundi og ræddi þetta beint við stækkunarstjóra Evrópusambandsins um daginn í Strassborg með þingmannanefnd héðan frá Alþingi og Evrópusambandsins. Það var alveg kýrskýrt af orðum hans að auðvitað tefði makríllinn fyrir. Auðvitað hefur þetta ekki gengið eins hratt og vel og menn lögðu upp með. Við skulum ekki gleyma því, hæstv. ráðherra, að núna hafa skoðanakannanir snúist við. Það er ekki einu sinni meiri hluti lengur fyrir því að halda viðræðunum (Forseti hringir.) áfram. Í seinustu könnun vildu 54% draga umsóknina til baka, leggja hana til hliðar.

Ég ítreka spurningu mína um hvað honum finnist um ummæli hæstv. (Forseti hringir.) atvinnuvegaráðherra, að við eigum að láta eins og ekkert sé, hvort það sé hægt enn þá. Er það það sem (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra boðar?