141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:09]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spurði hvort það væri skynsamlegt að vinna þetta á sama tíma. Já, en hvar? Það er auðvitað skynsamlegt þegar kemur að jarðhitanum að vinna áfram þau verkefni þar sem er þegar búið að raska svæðunum, en ekki vaða inn á óröskuð svæði þegar svo mikil óvissa er í kringum þau. Það er mikill ábyrgðarhluti. Það eru ærin verkefni nú þegar í orkunýtingu án þess að Krýsuvíkursvæðið á Reykjanesskaga eða Reykjanesskaginn yfir höfuð séu þar. Það er ekki rétt að ekki sé hægt að vinna þau á sama tíma.

Reyndar hefur eiginlega alveg vantað í þessa umræðu að fjármögnunarvandinn hefur líka stoppað ýmis verkefni. Tökum Hverahlíð sem dæmi. Hvað hefur stoppað þar? Er það ekki fjármögnunarvandi Orkuveitunnar? Hvar er kaupandinn að allri þessari orku? Hvar er hann?

Í stað þess að segja að hér sé verið að stoppa allt, sem er ekki rétt, eigum við þá ekki að fara fram af ábyrgð (Forseti hringir.) varðandi jarðhitann, leyfa sérstaklega þessum gríðarlega dýrmætu svæðum að vera um sinn, þróa áfram þær virkjanir sem fyrir eru (Forseti hringir.) og fólk er að lenda í ýmsum aðkallandi og krefjandi úrlausnarefnum (Forseti hringir.) með?