141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:14]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á að hafa ekki svarað spurningu hans um neðri hluta Þjórsár. Ég held að þingheimi sé vel kunnugt um afstöðu mína til neðri hluta Þjórsár. Ef ég man rétt (Gripið fram í.) fjallaði ein af fyrstu ræðunum mínum á þingi, ef ekki jómfrúrræðan, meira og minna um Þjórsá, vinkonu mína, þannig að það svar held ég að liggi fyrir. (Gripið fram í.) Það blasir við hver afstaða mín er í því máli. Það blasir líka við að afstaða mín er sú að Reykjanesvirkjanirnar séu gríðarleg mistök, þ.e. að hafa þær í orkunýtingu. Það er svo margt sem við hefðum getað bætt hér en í þágu þess að virða það ferli sem hefur verið í gangi gerum við minni háttar breytingar, mjög vægar og hóflegar.

Varðandi þetta með þjóðina þá held ég að það sé alveg hárrétt að fólk vilji að það ríki almenn sátt um þessi mál en hún þarf auðvitað að hafa (Forseti hringir.) góðan grunn. Að sjálfsögðu vill fólk atvinnu, fólk vill ekki þurfa að hafa áhyggjur (Forseti hringir.) af skuldum heimilisins eða skuldum orkufyrirtækja o.s.frv., en það er ekki endilega að kalla á að hér verði (Forseti hringir.) hver lækjarspræna eða hvert jökulfljót virkjað heldur að við búum við heilbrigt samfélag þar sem uppbyggileg atvinna er í boði. Það er hægt að gera með ýmsu (Forseti hringir.) móti.