141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um tvær breytingartillögur sem ég hyggst leggja fram við þingsályktunartillöguna. Þær eru báðar byggðar á að hluta til umsögn sem sá sem hér stendur sendi frá atvinnuveganefnd til umhverfis- og samgöngunefndar og styðst við minnisblað orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins hvað rökstuðning hvað báðar þessar breytingartillögur varðar.

Ég hef reynt í umræðunni að fá fram sjónarmið þingmanna stjórnarflokkanna til þess að taka upp umræðu um á hverju hagvöxturinn í þessu landi eigi að byggjast. Verið hafa hugmyndir um uppbyggingu í Helguvík og orkunýtingu á Suðurnesjum í hagvaxtarspám undanfarin ár. Nú er talað um að hagvaxtarspá næstu ára eigi m.a. að byggjast á orkunýtingu í Þingeyjarsýslum og uppbyggingu þar þó svo að alla fjármuni skorti í fjárlögin til að styrkja þá innviði sem eru forsenda þeirrar uppbyggingar. Það var nú reyndar það sama og varðandi Helguvíkina, ekki var neitt fé ætlað í framkvæmdir þar.

Ég kynni hér tvær breytingartillögur, annars vegar breytingartillögu um að færa Hagavatnsvirkjun, þ.e. útfallið, Farið úr Hagavatni, sem braust þar fram fyrir einum 70, 80 árum, í nýjan farveg, að endurheimta það, loka því með stíflu og nýta þá fallhæð sem þar myndast. Það er svolítið skemmtilegt verkefni sem byrjaði sem landgræðsluverkefni og hefur síðan þróast yfir í virkjun. Fimm jákvæðar umsagnir komu í umsagnarferlinu. Engu að síður ákváðu ráðherrarnir að ekki mætti setja neinar virkjanir í nýtingarflokk, vegna þess að búið var að ákveða það pólitískt. Það mætti bara taka þær úr nýtingarflokki og setja þær í bið. Vísuðu ráðherrarnir til þess að það væri hin lagalega umgjörð sem samþykkt var í þinginu. Ég kannast ekki við að sú umræða hafi farið hér fram að það ætti alltaf að færa úr þeim flokkum sem tækju til slíks og færa þá kosti í bið, að það væri verkefni umsagnarferlisins, ég kannast ekki við það. Hins vegar er umsagnarferlið hugsað sem neyðarhemill, stoppistöð, þar sem ráðherrarnir geta komið leiðréttingarsjónarmiðum á framfæri, til að mynda ef skýrari upplýsingar koma varðandi einhvern kost. Auðvitað getur það í mörgum tilvikum verið skynsamlegt að færa hann í bið, en í þessu tilviki hníga öll rök að því að færa þann kost í nýtingarflokk að nýju, orkunýtingarflokk. Það vill svo til að allir fallast á framkvæmdirnar sem eiga að vera þarna, líka umhverfisverndarsinnar, en þeir segja þá: Það má ekki verða arður af þessu. Það má sem sagt ekki setja túrbínu á fallið. Það má byggja stífluna, það má gera vegina, það má gera þetta, það má gera hitt en það má ekki nýta þetta og hafa arð af því. Þá eru nú rökin orðin dálítið hjákátleg, frú forseti.

Hin breytingartillagan varðar Hólmsárvirkjun hina neðri við Atley í Skaftárhreppi. Ég hef komið inn á það í máli mínu að það sé hluti af samfélagslegri sátt. Sveitarfélagið átti í samræðum við hæstv. umhverfisráðherra um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og að setja fjóra virkjunarkosti inn á aðalskipulag. Það er sá kostur sem er bestur, hefur minnst umhverfisáhrif. Það mun augljóslega styrkja innviði sveitarfélagsins með nýjum störfum, mikilli innspýtingu á uppgangstímanum og síðan með varanlegum störfum, ekki mörgum en hugsanlega nægjanlega mörgum til að hjálpa til við að snúa óheillaþróun í atvinnu- og íbúaþróun þessa svæðis með fasteignagjöldum og öðru, svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að auka afhendingaröryggi raforku á þessu svæði þar sem leið byggðalínu er löng. Orka kæmi inn á svæðið og gæti líka orðið til þess að auðvelda það að setja upp og ganga frá þriggja fasa rafmagni á bæi á þessu svæði.

Orkuskrifstofa iðnaðarráðuneytisins (Forseti hringir.) segir í minnisblaði sínu um báða kostina að það sé skynsamlegt og rökrétt (Forseti hringir.) að færa þá úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Því legg ég þessar tvær (Forseti hringir.) tillögur hér fram.