141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

beiðni um nefndarfund.

[14:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Í umhverfis- og samgöngunefnd var málið tekið upp á fundi nú í hádeginu og eins og fram hefur komið var það í kjölfar beiðni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd í gær um sameiginlegan fund þessara nefnda með gestum, þ.e. aðilum vinnumarkaðarins, vegna stöðu mála í samskiptum þeirra og ríkisstjórnarinnar, ekki síst með hliðsjón af stöðu rammaáætlunar. Við ítrekuðum sem sagt á nefndarfundi í umhverfis- og samgöngunefnd þessa beiðni. Ekki hefur verið orðið við henni í þeim skilningi að fundur hafi verið ákveðinn. Formaður nefndarinnar (Forseti hringir.) lýsti því yfir að hún hygðist halda fund af þessu tagi, en á henni var að skilja að það væri ekki forgangsmál. Það er auðvitað óásættanlegt í ljósi þess að rammaáætlun er til umfjöllunar (Forseti hringir.) hér í dag.