141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

beiðni um nefndarfund.

[14:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Tími minn var svo naumur hér áðan að ég náði ekki að ljúka máli mínu. Ég vildi geta þess að formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, gat þess að hún hygðist halda fund í næstu viku, kannski síðar. Auðvitað getur hún gert nánar grein fyrir áformum sínum um það efni. Við vöktum athygli á því að þegar fram er komin formleg beiðni frá að minnsta kosti þremur þingmönnum í hverri þingnefnd er skylt að halda fund en auðvitað er ákveðið svigrúm varðandi tímasetningu. Hins vegar, eins og hv. þingmaður Jón Gunnarsson benti á, stendur málið í efnislegu samhengi við þá umfjöllun sem fer hér fram um rammaáætlun þannig að það er engin skynsemi í öðru en að halda nefndarfund hvort sem valið verður að halda fund í hvorri nefnd í sínu lagi eða hafa sameiginlegan fund eins og við fórum reyndar fram á. Það er engin skynsemi í því að geyma þessi fundarhöld þangað til umfjöllun um rammaáætlun er búin því að málið hefur efnislega samstöðu með því sem hér er (Forseti hringir.) til umræðu.