141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ræðu hennar. Hún kom inn á ýmsa hluti sem ég hef ekki heyrt mikið um áður, en hún velti líka fyrir sér virkjunarkostunum sem slíkum. Ég hef hugsað mikið um það ef þingið samþykkir rammaáætlun vinstri stjórnarinnar nokkurn veginn óbreytt, hverjir möguleikar okkar verði á næsta ári og þarnæsta ári. Það eru náttúrlega sláandi tölur sem við sjáum hér. Ég bendi hv. þingmanni á frábæra grein eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi stóraukist núna á síðustu þremur árum — ekki minnkað, heldur aukist. Hvað þurfum við þá? Jú, við þurfum aga í ríkisfjármálum, en við þurfum líka hagvöxt. Við þurfum að auka framleiðslu í landinu, verðmætasköpun. Það er náttúrlega mjög erfitt meðan ríkisstjórnin pönkast alltaf á sjávarútveginum sem er slæmt vegna sífellt meiri samkeppni á mörkuðum fyrir sjávarafurðir okkar. Við sjáum líka að ríkisstjórnin hefur sett virkjunarstopp með rammaáætluninni. Það er ekkert annað en virkjunarstopp.

Hvað telur hv. þingmaður að það muni taka langan tíma fyrir okkur að vinda ofan af þessu og fara af stað í framkvæmdir og nýta þá virkjunarkosti sem mest hafa verið rannsakaðir og verkefnisstjórnin um rammaáætlun hefur bent á að séu hagkvæmir, af því að ég tel að ríkisstjórnarflokkarnir séu búnir að tryggja sér meiri hluta á þingi fyrir rammaáætlun, sem mér finnst miður? Ég er að tala um Holta- og Hvammsvirkjanir. Mun það ekki tefja allt ferlið um einhver missiri, jafnvel ár?