141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina.

Auðvitað tefur aðgerðin málið mjög ef það verður samþykkt í þinginu. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telur að ríkisstjórnin sé búin að tryggja sér stuðning í málinu. Ég er ekki alveg eins viss. Ég hef bent á alla orkuna, tímann og mannaflann sem fer í að ræða þessi mál hér og breyta þeim í mikilli ósátt hjá þessari ríkisstjórn eins og raunin er með öll mál á þeim bæ, valinn er ófriður þegar friður er í boði.

Segjum sem svo að þessi vinstrislagsíðurammaáætlun sem Vinstri grænir og Samfylkingin eru búin að káma út með fingraförum sínum verði samþykkt fyrir jólin. Það tekur ákveðinn tíma. Við þurfum að fara í gegnum kosningar og þá taka nýir flokkar við stjórnartaumunum. Ég mundi segja að málið geti hæglega frestað því um alla vega eitt og hálft, tvö ár að hér fari alvöruatvinnuuppbygging af stað því að þó að lagagrunnur sé tilbúinn fer alltaf tími í að kynna verkefnin, afla fjármagns og svo framvegis.

Ég var nú svo heppin að ég var svo lengi í vinnunni í gær að ég las Moggann í nótt þegar ég kom heim af þinginu. Dagblöðin voru komin á undan mér í póstkassann þannig að ég las hina merku grein eftir Ragnar Árnason í nótt og fannst hún mjög athyglisverð. Sú grein er má segja skyldulesning vegna þess að þar sýnir höfundur fram á að sá blekkingarleikur sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon fer fyrir er algjörlega til skammar. Það er algjörlega til skammar að þessi maður skuli geta hagrætt (Forseti hringir.) sannleikanum eins og honum sýnist.