141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef farið yfir það í ræðum að sú rammaáætlun sem liggur fyrir þinginu er til þess fallin að skrúfa niður atvinnulífið hér og að sjálfsögðu leiðir það af sér minnkandi hagvöxt. Hagvöxturinn er ekki mikill sem stendur og er líklega aðallega drifinn áfram af því að fólk tekur út séreignarsparnað sinn og notar hann. Það er sparnaður sem átti að vera heilagur og geymast til efri áranna. Lífeyrissjóðir eru óaðfararhæfir þannig að fólk notar jafnvel séreignarsparnað sinn til að borga niður skuldir af húsnæði og svo þeir sem verst fara missa kannski húsnæðið. Þar með er búið að gera viðkomandi einstaklinga að lögbrjótum. Ég varaði strax við því í upphafi.

Í grein Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu kemur fram, sem er öllu verra, hvað ríkissjóður greiðir gríðarlegar upphæðir í vexti, tæpa 86 milljarða núna samkvæmt fjárlögum, þannig að á næstu fimm árum verða greiddir 400 milljarðar bara í vaxtakostnað.

Virðulegi forseti. Það sjá allir að það gengur ekki upp. Það verður að snúa við þeirri þróun. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin sem nú situr gerir það ekki, hún hefur sýnt það. Hún er duglaus og verklaus og ætti að sjá sóma sinn í því að skila inn umboði sínu.